1. Almennar spurningar

Hvenær get ég keypt heimilistæki með Home Connect hjá smásöluaðilum?
Fyrstu heimilistækin með Home Connect-virkni frá Bosch fást hjá söluaðilum í Eystrasaltsríkjunum frá og með maí 2017.

Munu önnur vörumerki bjóða upp á heimilistæki með Home Connect-virkni?
Það er markmiðið! Til að byrja með verður hægt að fá heimilistæki frá Bosch og Siemens með Home Connect-virkni sem eru fullkomlega samhæf við kerfið. Áætlað er að fleiri vörumerki fylgi í kjölfarið. Við eigum í samræðum við samstarfsaðila og framleiðendur annarra vörumerkja.

Get ég notað Home Connect með heimilistækjunum sem ég á fyrir?
Það eru viss vandamál fyrir hendi varðandi uppfærslur eða uppsetningu á forritum í eldri tækjum af eftirfarandi ástæðum: til dæmis er hugbúnaðarlausn sem sett er upp eftir á alltaf síðri valkostur en lausn sem uppsett er strax frá upphafi. Hún er auk þess dýrari valkostur. Enn fremur gilda sérstakar öryggisráðstafanir um heimilistæki sem þarf að fylgja og hafa eftirlit með, líka þegar skipt er um rafeindabúnað á staðnum. Við mælum heldur ekki með notkun svokallaðra snjalltengja, stýranlegra millistykkja, þar sem þau geta valdið rafmagnstruflunum.

Er hægt að innleiða aðra þætti eins og ljós eða hita inn í Home Connect-kerfið?
Enn sem komið er höfum við ekki gert áætlun um slíkt og einbeitum okkur eingöngu að heimilistækjum. Hins vegar erum við ávallt opin fyrir nýjum hugmyndum og í raun er hægt að innleiða Home Connect-kerfið í heild sinni inn í önnur sjálfvirknikerfi fyrir heimili eða tæknikerfi samstarfsaðila á borð við IFTTT.

Er hægt að stjórna heimilistækjunum úr mismunandi tækjum samtímis?
Já, það er hægt að stjórna heimilistæki úr mismunandi fartækjum.

2. Spurningar um gagnavernd og öryggi gagna

Þarf Wi-Fi beinirinn minn að uppfylla einhverjar lágmarkskröfur?
Home Connect-kerfið virkar með öllum hefðbundnum Wi-Fi beinum á markaðnum sem eru ekki eldri en fimm ára (áætlað). Til að gæta fyllsta öryggis verða Wi-Fi net að vera dulkóðuð (með WPA- eða WPA2-dulkóðun). Þú þarft að hafa dulkóðað Wi-Fi net til að geta skráð heimilistækið þitt.

Hvað með gagnavernd og öryggi gagna?
Við notum háþróaða dulkóðunartækni og látum óháða sérfræðinga reglulega fara yfir og prófa kerfið okkar vandlega.

Hvað einkennir helstu öryggisþætti Home Connect?
Öryggisþættir okkar eru byggðir á fjölda öryggisráðstafana og gagnaskiptin fara fram í samræmi við samskiptareglur Home Connect. Aðeins nauðsynleg gögn eru vistuð á netþjóni Home Connect og þau eru undir nafnleynd. Auk þess er aðeins hægt að hafa samskipti í gegnum dulkóðuð netkerfi og til að tryggja öryggið enn frekar er gerð krafa um öryggisvottorð, eldvegg á þjóninum og vörn með aðgangsorði fyrir Home Connect-forritið.

Get ég einnig komið í veg fyrir að heimilistækið mitt sendi gögn?
Já. Þú getur ákveðið hvort þú viljir nota viðbótarvirkni sem nettengd heimilistæki geta boðið þér. Heimilistækin munu aðeins senda og taka á móti gögnum ef þú vilt að þau geri það og þú getur stjórnað þeim í samræmi við það.

Hvernig eyði ég Home Connect-reikningnum mínum?
Þú getur eytt Home Connect-reikningnum þínum hvenær sem er í forritinu. Til að gera það skaltu smella á stillingahnappinn efst í hægra horninu. Í hlutanum um persónuupplýsingar geturðu fundið atriðið „Notandareikningnum eytt“. Að lokum þarftu að staðfesta eyðinguna með því að slá inn aðgangsorðið þitt.

3. Spurningar varðandi tengingu/sendistyrk

Verður einnig boðið upp á viðmót fyrir staðarnet (LAN) fyrir heimilistækin?
Nei, við höfum ekki í huga að bjóða upp á tengingu í gegnum staðarnet vegna þess að Home Connect notar Wi-Fi fyrir gagnaskipti. Við ákváðum að nota Wi-Fi tækni vegna þess að hún er til staðar á næstum öllum heimilum.

Þarf ég einhvern annan búnað en heimilistækið með Home Connect-virkni og Wi-Fi beininn?
Nei. Heimilistækið hefur samskipti við snjallsímann eða spjaldtölvuna þína í gegnum Wi-Fi beininn. Ekki er þörf á neinum öðrum búnaði.

Heimilistækið mitt er með veikt Wi-Fi merki vegna þess að fjarlægðin frá Wi-Fi beininum er töluverð. Þýðir þetta að ég geti ekki notað Home Connect?
Ýmsir möguleikar eru í boði. Þú getur lengt drægi netkerfisins með drægislengi. Ef drægislengirinn er staðsettur á milli heimilistækisins og beinisins ætti móttaka þráðlausa netsins til dæmis að nást niðri í kjallaranum án nokkurra vandkvæða.

Annar möguleiki er að nota raflínubreyti til að framlengja netið til heimilistækisins. Þá geturðu skráð þig inn á netið í nettengda heimilistækinu og stjórnað því þannig. Starfsfólk okkar í þjónustuverinu aðstoðar þig með glöðu geði í báðum tilvikum og hjálpar þér með þann vélbúnað sem þig kann að vanta.

Get ég tengt heimilistækin mín um WPS þó svo að ég noti magnara til að auka sendistyrk?
Já, magnarar bjóða upp á WPS-pörun að einhverju leyti. Annars er hægt að tengja heimilistækið handvirkt (sjá einnig handvirk pörun netkerfa).

Hvernig get ég vitað hvort nettengingin mín nær til heimilistækjanna minna?
Til eru forrit eins og Wi-Fi Analyser sem hægt er að nota til að athuga móttökustyrkinn þar sem heimilistækið er staðsett. Einnig er hægt að nota snjallsímann eða spjaldtölvuna til að athuga sendistyrkinn þar sem heimilistækið er staðsett.

Hvaða beinar (Wi-Fi og LTE) bjóða upp á mjög sterka tengingu fyrir heimilistæki með Home Connect?
Að jafnaði er hægt að nota alla beina til að tengja heimilistæki við forritið.

Hverjar eru Wi-Fi kröfurnar?
Home Connect virkar yfirleitt á eðlilegan hátt með hefðbundinni þráðlausri stillingu flestra beina fyrir heimanet sem fást á almennum markaði án nokkurra breytinga. Í einhverjum tilvikum þarf hugsanlega að breyta ákveðnum stillingum handvirkt. Ef nauðsyn krefur skal athuga hvort eftirfarandi stillingar eru réttar í beininum. Lestu uppsetningarleiðbeiningarnar fyrir beininn til að sjá hvernig komist er að grunnstillingum beinisins.

Ef nauðsyn krefur, til dæmis við handvirka uppsetningu, skal fylgja eftirfarandi ábendingum og stillingum:

  • Þráðlausa netið þitt þarf að vera dulkóðað, helst með því að nota WPA2-öryggi eða að minnsta kosti WPA. Opin netkerfi henta ekki fyrir notkun á Home Connect.
  • Home Connect virkar á netkerfisstillingum IEEE 802.11 b, g og n. Tryggðu að beinirinn sé stilltur samkvæmt því. Heimilistæki eru aðeins samhæf tíðnisviðinu 2,4 GHz. Ef þú ert að tengja heimilistæki skaltu stilla netkerfið samkvæmt því.
  • Home Connect virkar ekki á Wi-Fi netum sem krefjast innskráningu í vafra, þ.e. notandanafns og aðgangsorðs sem slegið er inn í vafra.
  • Þú ættir að vera með stöðugt þráðlaust net þar sem móttaka og netaðgengi er gott.
  • Slökktu á MAC-síun í beininum til að koma í veg fyrir að MAC-vistföng heimilistækjanna og snjalltækjanna verði skráð.
  • Ekki er mælt með notkun staðgengla.
  • Tengi 443, 8080 og 123 verða að vera opin.
  • Kveikt þarf að vera á valmöguleikanum fyrir margvarpsbeiningu í beininum til að hægt sé að para við Home Connect-tæki.

4. Spurningar um vélbúnað og hugbúnað

Fyrir hvaða stýrikerfi er Home Connect fáanlegt?
Forritið er fáanlegt fyrir iOS og Android.

Ætla samstarfsaðilarnir Siemens/Bosch að bjóða upp á sinn eigin stjórnbúnað (spjaldtölvu)?
Nei, það er ekki ætlunin vegna þess að það myndi þýða aukin útgjöld fyrir þig þar sem þú þyrftir að kaupa nýjan stjórnbúnað. Ýmsar útgáfur af spjaldtölvum og snjallsímum eru á markaðnum og því hönnuðum við Home Connect þannig að það myndi virka með næstum öllum hefðbundnum útgáfum á markaðnum.

Hvað kostar forritið og hvar get ég sótt það?
Forritið er ókeypis og hægt er að sækja það í Apple App Store eða Google Play Store.

Get ég breytt prófílum annarra notenda?
Já. Notendur með aukin notandaréttindi geta stjórnað prófílum annarra notenda forritsins. Hægt er að breyta notandaréttindum notenda fyrir öll algeng heimilistæki.

5. Spurningar um stafrænar leiðbeiningar

Hverjir eru helstu kostirnir í samanburði við PDF-skjal eða leiðbeiningar á pappír?
Öfugt við PDF-skjal er stafræna notendahandbókin í forritinu sniðin að farsímanotkun. Auðvelt er að leita að einstökum atriðum, hoppa yfir kafla og þú getur aukið aðdrátt á myndir og texta.

Er hægt að sækja þessar stafrænu leiðbeiningar án endurgjalds?
Stafrænu leiðbeiningarnar eru hluti af Home Connect-forritinu og þær er hægt að nálgast í fartækinu þínu.

Fæ ég einnig leiðbeiningarnar á pappír?
Leiðbeiningar á pappír fylgja einnig með heimilistækinu.

Á hvaða verkvöngum get ég skoðað stafrænu leiðbeiningarnar?
Þar sem stafrænu leiðbeiningarnar eru samþættar við forritið keyra þær á sama verkvangi og forritið sjálft: iOS eða Android.

6. Spurningar um heim uppskrifta

Hvaðan koma uppskriftirnar?
Reyndir sérfræðingar í heimilistækjum þróuðu uppskriftirnar og löguðu þær að heimilistækjum með Home Connect-virkni, þá sérstaklega fyrir samstarfsaðila Home Connect.

Get ég einhvers staðar tilgreint að ég sé grænmetisæta/vegan eða að ég sé með mjólkuróþol o.s.frv.?
Hægt er að sía uppskriftirnar eftir nákvæmum skilyrðum í Home Connect-forritinu.

Eru uppskriftirnar tengdar við ísskápinn minn?
Í framtíðinni munu uppskriftir hafa aðgang að ísskápnum þínum. Þú munt geta búið til innkaupalista og séð hvaða hráefni þig vantar fyrir ákveðna uppskrift.

Get ég sótt nýjar uppskriftir?
Þegar nýjar uppskriftir eru í boði birtast þær sjálfkrafa í Home Connect-forritinu.

7. Spurningar um flutning á heimilistækjum með Home Connect til annars lands

Hvað þarf ég að gera við heimilistækin mín sem eru með Home Connect ef ég flyt til annars lands?
Samkvæmt notkunarskilmálum Home Connect skal breyta stillingum fyrir landsvæði við flutning. Veldu viðeigandi land í stillingahlutanum í Home Connect-forritinu.

Hafðu í huga að notkun á Home Connect-forritinu í öðru landi kann að vera háð öðrum notkunarskilmálum og aðrir skilmálar um gagnavernd kunna að eiga við. Ef þú finnur ekki nýja landið í listanum yfir lönd styðjum við enga frekari notkun á Home Connect-forritinu og er hún þá óleyfileg samkvæmt notkunarskilmálum okkar. Enn fremur styðjum við ekki notkun á Home Connect-forritinu í tengslum við heimilistæki þar sem notkun þess er óheimil í viðkomandi landi. Af þessum sökum heimila notkunarskilmálar okkar ekki slíka notkun. Ef þú ert óviss um hvort þú hefur leyfi til að nota heimilistækið í nýja landinu skaltu hafa samband við framleiðanda heimilistækisins.

Hvað þarf ég að gera við heimilistækin mín sem eru með Home Connect ef ég flyt á milli heimsálfa?
Lestu tilkynninguna um „flutning á heimilistækjum með Home Connect til annars lands“. Ef flutt er á milli heimsálfa er nýja landið þitt hugsanlega ekki skráð í Home Connect-forritinu. Ef svo er skaltu eyða uppsetta Home Connect-forritinu. Sæktu Home Connect-forritið í App Store/Playstore í nýja landinu í staðinn og settu það upp. Endurheimtu verksmiðjustillingar heimilistækjanna þinna sem eru með Home Connect, settu upp nýjan notandareikning og skráðu heimilistækin þín aftur í forritinu.