Home Connect – bylting á daglegu lífi

Velkomin(n) í Home Connect og nýjan lífsmáta. Þú getur stjórnað heimilistækjum sem framleidd eru af sérvöldum evrópskum vörumerkjum jafnvel þegar þú ert að heiman, sem gefur þér meiri tíma og orku. Með Home Connect-forritinu hefurðu meiri tíma til að sinna hlutum sem skipta þig máli. Með Home Connect losnarðu við óþolandi tímaeyðslu og getur stjórnað heimilisstörfunum óháð tíma og rými. Sjáðu hvernig daglegt líf þitt getur breyst.

Allt sem þú þarft að vita um Home Connect

Hvað er Home Connect?

Með Home Connect geturðu stjórnað heimilistækjum frá sérvöldum evrópskum vörumerkjum á einfaldan og skilvirkan hátt úr snjallsíma eða spjaldtölvu. Viltu forhita ofninn frá skrifstofunni eða vita hvort uppþvottavélina vanti hreinsiefni þegar þú ert að versla? – þetta er allt hægt með Home Connect. Þar með er ekki allt upp talið. Home Connect býður upp á mikið úrval aðgerða sem snúa ekki einungis að því að fjarstýra heimilistækjunum. Þú færð ábendingar og góð ráð um hvernig heimilistækin eru notuð og hentuga aukahluti sem hægt er að panta með fáeinum smellum, ásamt uppskriftum, upplýsingum um stöðu heimilistækjanna og tæknilegan stuðning ef eitthvað bilar.

Hvernig virkar Home Connect?

Home Connect notar þráðlaust net (Wi-Fi) til að tengja heimilistækin þín við snjallsímann eða spjaldtölvuna þína. Þú þarft því engan annan vélbúnað, aðeins heimilistæki með Home Connect-virkni og forritið sem þú getur sótt án endurgjalds fyrir iOS og Android.

Hægt er að fjarstýra heimilistækjum með innbyggða Wi-Fi flögu í gegnum Home Connect. Einnig er hægt að fjarstýra mikilvægum aðgerðum í heimilistækjum með Home Connect. Gagnaskipti við heimilistæki eru varin og uppfylla hæstu öryggiskröfur. TÜV Trust IT hefur einnig staðfest hátt öryggisstig Home Connect-forritsins.

Hvaða heimilistækjum getur Home Connect stjórnað?

Home Connect er fyrsta forritið sem gerir þér kleift að stjórna heimilistækjum frá ýmsum framleiðendum. Í framtíðinni muntu geta fjárfest í nettengdum heimilistækjum án þess að þurfa að kaupa þau frá sama vörumerkinu í hvert sinn.

Framleiðendur heimilistækja geta sett Home Connect-staðalinn í nýjustu kynslóð heimilistækjanna sem þeir bjóða upp á. Sum heimilistæki frá sérvöldum evrópskum vörumerkjum eru þegar samhæf við Home Connect. Frekari upplýsingar um samstarfsaðila okkar og heimilistæki með Home Connect-virkni má finna hér.

Hvað er á döfinni hjá Home Connect?

Um allan heim er nettækni tækja – net hlutanna – orðin mjög vinsæl. Nettækni hefur verið hluti af okkar daglega lífi í þó nokkurn tíma. Hiti, lýsing, öryggi, margmiðlun og afþreying eru aðeins nokkur dæmi um notkun á þessari tækni. Helstu framleiðendur Evrópu á sviði heimilistækja einbeita sér að Home Connect. Í framtíðinni eru miklar líkur á að enn fleiri framleiðendur muni nota staðalinn okkar og með því verði enn fleiri heimilistæki og aðgerðir í boði fyrir þig. Þú getur hellt upp á kaffi þegar þú ert uppi í rúmi, kíkt í ísskápinn þinn í gegnum myndavél þegar þú ert að heiman eða kveikt á þurrkaranum á leiðinni í leikhúsið – möguleikarnir eru nánast óendanlegir. Færðu hvunndagslífið í framtíðina og njóttu fríðindanna – bæði stórra og smárra – sem Home Connect getur boðið þér!

Efni forrits

Með háþróaða forritinu fyrir heimilistækin þín geturðu núna stjórnað mikilvægum aðgerðum sem tækið býður upp á, jafnvel þegar þú ert á ferðinni. Þú getur ekki aðeins kveikt og slökkt á heimilistækjum, þú getur líka sett þau í bið eða keyrt kerfi eitt á eftir öðru, til dæmis á ofninum. Þú getur einnig athugað stöðu tækisins hvenær sem er til að sjá hversu langt kerfið er komið og hvort þú hafir í raun kveikt eða slökkt á tækinu. Home Connect skiptist í þrjá hluta sem bjóða upp á mun meira en aðeins fjarstýringu:

Hér er að finna margvíslegar upplýsingar um tengd heimilistæki ásamt ráðleggingum um hvernig best er að nota þau. Ef vandamál kemur upp með eitthvert heimilistæki færðu tilkynningu um það. Þannig geturðu haft samband í tíma við þjónustuteymið sem er sérþjálfað í Home Connect-heimilistækjum.

Í þessum hluta finnurðu öll tæki til heimilisnota sem eru tengd við forritið. Hér geturðu stjórnað heimilistækjunum þínum og haft yfirsýn yfir tengd heimilistæki. Þú getur séð hvaða heimilistæki eru í gangi, hversu mikill tími er eftir þar til aðgerðum lýkur, hvort eitthvert tæki þarfnist athygli þinnar og hvernig þú skulir bregðast við.

Hér finnurðu fjölda uppskrifta fyrir ofna með Home Connect-virkni sem auðvelda þér eldamennskuna. Sýnimyndbönd sýna hvert skref fyrir undirbúning máltíða og veita gagnlegar ráðleggingar í tengslum við matseldina.

Prófaðu prufustillinguna!

Jafnvel þó þú eigir ekki heimilistæki með Home Connect geturðu samt sem áður prófað forritið okkar. Veldu einfaldlega innbyggðu prufustillinguna og prófaðu eiginleikana: Til dæmis geturðu séð hvernig hægt er að kíkja inn í ísskápinn eða kveikja á ofninum þegar þú ert að heiman. Forritinu fylgir einnig mikið úrval af uppskriftum og ábendingar og góð ráð í tengslum við eldamennsku.

Notkun

Til að stjórna Home Connect með forritinu þínu þarftu að framkvæma þrjú einföld skref. Gakktu úr skugga um að
- heimilistækið þitt nái nettengingu þar sem það er staðsett,
- heimanetið þitt (Wi-Fi) virki og
- heimilistækið hafi verið tekið úr umbúðunum og sé tengt áður en þú slærð inn persónuupplýsingar og býrð til notandareikning.

Skráning og stofnun notandareiknings/-reikninga

Þú þarft reikning til að nota Home Connect, fjarstýra heimilistækjunum þínum í gegnum forritið og til að ganga úr skugga um að enginn geti fengið aðgang að heimilistækjunum þínum án þíns leyfis.

Skráðu þig og settu upp reikninginn þinn. Sæktu Home Connect-forritið í snjallsímann þinn eða spjaldtölvuna úr Apple App Store eða Google Play Store og settu það upp. Opnaðu Home Connect-forritið í snjallsímanum/spjaldtölvunni þegar þú ert tengd(ur) við sama Wi-Fi net og heimilistækið sem styður Home Connect. Sláðu inn fornafn, eftirnafn, netfang (notandanafn) og aðrar upplýsingar eftir því sem þörf krefur. Sláðu inn aðgangsorð sem þú velur og staðfestu það.

Þú færð sendan tölvupóst til að staðfesta skráninguna sem inniheldur staðfestingartengil. Staðfestu skráninguna með því að smella á staðfestingartengilinn innan tíu daga.

Staðbundnar Wi-Fi kröfur, þar með taldar stillingar beinis

Home Connect virkar yfirleitt á eðlilegan hátt með hefðbundinni þráðlausri stillingu flestra beina fyrir heimanet sem fást á almennum markaði án nokkurra breytinga. Í einhverjum tilvikum þarf hugsanlega að breyta ákveðnum stillingum handvirkt. Ef nauðsyn krefur skal athuga hvort eftirfarandi stillingar eru réttar í beininum. Lestu uppsetningarleiðbeiningarnar fyrir beininn til að sjá hvernig komist er að grunnstillingum beinisins.

 • Ef þú ert óviss um hvernig beinirinn er grunnstilltur skaltu prófa að nota Wi-Fi Protected Setup-hnappinn (WPS) á beininum til að einfalda uppsetninguna. WPS grunnstillir sjálfkrafa þráðlaust öryggi nettengdra tækja sem styðja Wi-Fi Protected Setup.

Ef nauðsyn krefur, til dæmis við handvirka uppsetningu, skal fylgja eftirfarandi ábendingum og stillingum:

 • Þráðlausa netið þitt þarf að vera dulkóðað, helst með því að nota WPA2-öryggi eða að minnsta kosti WPA. Opin netkerfi henta ekki fyrir notkun á Home Connect.
 • Home Connect virkar á netkerfisstillingum IEEE 802.11 b, g og n. Tryggðu að beinirinn sé stilltur samkvæmt því. Heimilistæki eru aðeins samhæf tíðnisviðinu 2,4 GHz. Ef þú ert að tengja heimilistæki skaltu stilla netkerfið samkvæmt því.
 • Home Connect virkar ekki á Wi-Fi netum sem krefjast innskráningu í vafra, þ.e. notandanafns og aðgangsorðs sem slegið er inn í vafra.
 • Þú ættir að vera með stöðugt þráðlaust net þar sem móttaka og netaðgengi er gott.
 • Slökktu á MAC-síun í beininum til að koma í veg fyrir að MAC-vistföng heimilistækjanna og snjalltækjanna verði skráð.
 • Ekki er mælt með notkun staðgengla.
 • Tengi 443, 8080 og 123 verða að vera opin.
 • Kveikt þarf að vera á valmöguleikanum fyrir margvarpsbeiningu í beininum til að hægt sé að para við Home Connect-tæki.

Samþætting heimilistækisins við Wi-Fi heimanetið

Til eru tvær leiðir til að samþætta heimilistækið við heimanetið: sjálfvirkt eða handvirkt. Ef beinirinn er með WPS-virkni geturðu skráð heimilistækið sjálfvirkt á netið. Ef beinirinn er ekki með WPS-virkni eða þú ert ekki viss geturðu einfaldlega skráð heimilistækið handvirkt á heimanetið.

Svona er heimilistækið samþætt við heimanetið: Aðstoðin í Home Connect í heimilistækinu sýnir þér hvernig þú tengir tækið við heimanetið. Ítarlega lýsingu á nauðsynlegum stillingum má einnig finna í bæklingnum sem fylgdi með nýja heimilistækinu.

Sjálfvirk netskráning: Aðstoðin í Home Connect reynir að skrá viðeigandi heimilistæki sjálfvirkt á netkerfið með því að nota WSP-virkni beinisins (frekari upplýsingar um WPS má finna í handbók beinisins). Ef kveikt er á sjálfvirkri virkjun þarftu að staðfesta tenginguna með því að ýta á WPS-hnappinn á beininum innan tveggja mínútna. Þegar heimilistækið hefur tengst við heimanetið birtast skilaboð á skjá heimilistækisins.

Handvirk netskráning: Þú getur einnig virkjað og skráð heimilistækið þitt handvirkt. Það er gert með því að velja „handvirk tenging“ í aðstoðinni í Home Connect í heimilistækinu. Heimilistækið setur upp sitt eigið Wi-Fi net sem þú getur fengið aðgang að í gegnum snjallsímann eða spjaldtölvuna þína. Opnaðu Wi-Fi stillingarnar í fartækinu þínu og tengdu það við Home Connect Wi-Fi net heimilistækisins (aðgangsorð: HomeConnect). Heimilistækið birtist í Home Connect-forritinu í snjallsímanum eða spjaldtölvunni þinni. Nú geturðu flutt aðgangsupplýsingarnar fyrir heimanetið (Wi-Fi) og þar með samþætt það við heimanetið.

Heimilistækið tengt við forritið (pörun)

Til að tryggja að forritið hafi aðgang að heimilistækjunum þínum þarftu að tengja tækið þitt við bæði þráðlausa netið þitt og Home Connect-forritið.

Svona tengirðu heimilistækið við forritið:
Ef viðkomandi heimilistæki er skráð á heimanetið þitt þarftu eingöngu að tengja það við Home Connect-reikninginn þinn. Ræstu Home Connect-forritið á fartækinu þínu og skráðu þig inn. Virkjaðu svo aðgerðina „Link with app“ (Tengja við forrit) á heimilistækinu þínu. Þetta skref veltur á heimilistækinu. Því skaltu lesa leiðbeiningarnar í bæklingnum sem fylgdi með tækinu. Forritið mun sjálfkrafa bera kennsl á heimilistækið þitt. Veldu „Add appliance“ (Bæta við heimilistæki) í forritinu til að ljúka við uppsetninguna.

Stuðningur við uppsetningu:
Ef þú þarft aðstoð við uppsetningu geturðu fundið bæklinginn fyrir nýja heimilistækið þitt hér . Annars skaltu lesa algengar spurningar eða hafa samband við þjónustuver Home Connect.

Það sem þjónustuver Home Connect getur boðið þér:
Þjónustuver Home Connect getur boðið þér faglegan stuðning í gegnum síma eða á staðnum. Stuðningurinn er ekki aðeins veittur við uppsetningu og ef þú hefur einhverjar spurningar um virkni eða notkun forritsins er starfsfólkið tilbúið að aðstoða þig. Þessi þjónusta er í boði í þeim löndum þar sem Home Connect er tiltækt. Leitaðu að samskiptaupplýsingum á vefsvæðinu fyrir landið þitt.

Athugaðu að þessi þjónusta er eingöngu í boði í Þýskalandi og fyrir heimilistæki sem eru uppsett þar.

Eitt forrit – mikill virðisauki

Með Home Connect breytist ofninn þinn í fagmann og leirtauið þvær sig sjálft. Fáðu yfirlit yfir alla kostina sem Home Connect býður upp á og hvernig það getur einfaldað líf þitt.

Kaffivélin

Nú getur þú notað kaffivélina sem þinn eigin kaffibarþjónn. Þú getur pantað þér kaffi úr stofunni, rúminu eða úti á svölum. Njóttu þess að dreypa á uppáhaldskaffidrykknum þínum eða snaraðu fram fjölda kaffidrykkja fyrir gestina þína.

Þú getur boðið upp á sérlagaða ítalska kaffidrykki, indverskt kaapi eða ástralskt mjólkurkaffi. Veldu á milli tíu hefðbundinna kaffitegunda og tuttugu annarra drykkja hvaðanæva að úr heiminum.

Þú getur orðið kaffiunnandi. Kynntu þér nýja hluti og fáðu fræðslu um mismunandi uppskriftir og hvaðan þær koma beint úr forritinu.

Ofninn

Kveiktu eða slökktu á ofninum meðan þú ert úti að sinna erindum, breyttu matreiðslukerfum og fylgstu með ofninum eða láttu þér nægja að fá tilkynningu þegar maturinn er tilbúinn. Sparaðu þér vinnu og tíma.

Fáðu góð ráð fyrir matreiðslu, myndbönd og fullt af nýjum uppskriftum sem eru sérsniðnar fyrir heimilistækið þitt og sendu undirbúningsstillingarnar beint í ofninn.

Í netverslun okkar, sem er aðgengileg í gegnum forritið, finnur þú alla aukahluti sem henta án þess að þurfa að leita lengi, og getur pantað þá beint. Léttu þér lífið á einfaldan hátt.

Uppþvottavélin

Sjáðu um heimilisstörfin, hvenær sem þú vilt og hvar sem er. Kveiktu á uppþvottavélinni þegar þú ert á ferðinni eða veldu tímann sem þú vilt að hún fari í gang.

Þarftu að þrífa potta, diska eða glös? Láttu Easy Start Assistant velja besta þvottakerfið fyrir þig.

Er uppþvottavélin búin að vinna eða er hreinsiefnið að klárast? Fáðu tilkynningu í snjallsímann þinn eða spjaldtölvuna svo þú getir einbeitt þér að mikilvægari hlutum.

Þvottavélin og þurrkarinn

Hér eftir laga heimilisstörfin sig að þinni dagskrá. Þú getur sett þvottakerfi af stað hvar sem þú ert stödd/staddur og fengið senda tilkynningu þegar því lýkur.

Notaðu Easy Start Assistant til að velja besta þvotta- og þurrkkerfið fyrir þvottinn þinn. Þessi eiginleiki er afar snjall og einfaldur í notkun og býður upp á flokkun eftir lit, efni og óhreinindastigi þvottsins.

Veldu skilvirkustu lausnina. Þegar þú velur þvottakerfi í gegnum Home Connect færðu allar helstu upplýsingar um vatns- og orkunotkun ásamt ábendingum um notkun.

Ísskápurinn

Nú geturðu kíkt í ísskápinn, jafnvel þegar þú ert ekki heima. Notaðu myndavélina til að athuga matarbirgðirnar hvenær sem er og fáðu senda tilkynningu ef hurðin er ekki almennilega lokuð.

Stjórnaðu hitastillingunum með forritinu eftir hentisemi og nýttu þér sérhannaðar kælistillingar eins og frístillinguna og ferskleikastillinguna. Snertiskjárinn á snjallsímanum þínum eða spjaldtölvunni gerir stillingarnar ennþá auðveldari og nákvæmari en á tækinu sjálfu.

Kynntu þér sniðug ráð og upplýsingar og fáðu að vita meira um matinn og birgðirnar í ísskápnum.

Kröfur

Upplýsingar um hvaða kröfur þarf að uppfylla og hvaða vélbúnað og hugbúnað þú þarft til að nota Home Connect má finna hér.

Notkunarkröfur

Home Connect er í boði í Þýskalandi, Austurríki, Hollandi, Lúxemborg, Frakklandi og Kína. Fleiri lönd munu bætast við. Til þess að geta notað Home Connect þarftu fyrst að sækja forritið og skrá þig í Home Connect með nafni og netfangi. Þá þarftu aðeins heimilistæki með Home Connect-virkni, fartæki (spjaldtölvu og/eða snjallsíma) og Wi-Fi beini sem virkar. Aðeins er hægt að skrá heimilistæki með Home Connect-virkni á örugg, dulkóðuð Wi-Fi net (WPA- eða WPA2-dulkóðun). Ólíkt öðrum lausnum krefst Home Connect ekki kostnaðarsams viðbótarbúnaðar og er tilbúið beint úr kassanum.

Kerfiskröfur

Hægt er að nota Home Connect með iPhone af 5. kynslóð eða nýrri, iPad af 3. kynslóð eða nýrri og iPad Mini frá og með iOS 8 eða einhverju af síðari stýrikerfum. Android-útgáfa forritsins er fáanleg fyrir Android 4.1 (Jelly Bean) eða eitthvert af síðari stýrikerfum.

Kröfur um tækjabúnað

Gakktu úr skugga um hvort heimilistækin eru samhæf við Home Connect. Heimilistækið þarf að vera með Home Connect-virkni (þetta kemur fram á límmiðanum með Home Connect-merkinu eða Wi-Fi límmiðanum). Forritið virkar á fartækjum sem keyra iOS- eða Android-stýrikerfi. Eingöngu er hægt að tengja heimilistæki við öruggt Wi-Fi netkerfi (dulkóðað) til að tryggja öryggi við notkun.

Öryggi

Gagnaöryggi þitt er okkar forgangsmál. Home Connect-forritið er yfirfarið af TÜV Trust IT og kerfið uppfyllir hæstu öryggiskröfur. Gagnasendingar sem tengjast tækinu og miðlun persónuupplýsinga eru að sjálfsögðu dulkóðaðar.

Aðgangur að Home Connect-forritinu og heimilistækjastjórn er aðeins veittur í gegnum þinn eigin reikning sem er varinn með aðgangsorðinu. Ekki gefa neinum upp notkunarupplýsingarnar þínar og haltu aðgangsorðinu leyndu. Starfsfólk okkar mun aldrei biðja þig um aðgangsorðið.

Hér finnur þú allar upplýsingar sem þú þarft um gagnaöryggi!

 • Aðeins er hægt að skrá heimilistæki með Home Connect-virkni á örugg, dulkóðuð WLAN-net (WPA- eða WPA2-dulkóðun). Ef WLAN-netið þitt er ekki dulkóðað geturðu ekki skráð heimilistækið þitt á það.
 • Allar netslóðir í Home Connect-kerfinu notast við TLS (Transport Layer Security), en það er dulkóðunartækni sem notuð er í netbankastarfsemi. Þessi aðferð er þekkt í heimabönkum. TLS í heimilistækjum með Home Connect-virkni notar auk þess tvíhliða vottorð sem tryggja meira gagnaöryggi.
 • Samskiptin á heimanetinu milli samskiptaeiningar heimilistækisins og Home Connect-forritsins notar AES-kóðun (Advanced Encryption Standard).
 • Forritið er varið með aðgangsorði sem slá þarf inn ef forritið hefur ekki verið notað í tiltekinn tíma (að hámarki þrjá mánuði).
 • Netþjónninn er varinn með eldveggjum.
 • Uppfærsla hugbúnaðar samskiptaeiningarinnar í heimilistækinu er einnig örugg (TLS) og regluleg uppfærsla samskiptaeiningarinnar tryggir að öryggisstöðlum sé alltaf fylgt.
 • Forritið byggir á öruggum kóðastöðlum.
 • Þjónustuteymi samstarfsaðila okkar munu aðeins fjargreina (væntanlegt frá 2015) um örugga gangatengingu og munu þurfa skýrt samþykki frá þér til að fá aðgang að heimilistækinu þínu.
 • Við buðum einnig sérfræðingum að reyna að brjótast inn í Home Connect-kerfið í raunverulegum aðstæðum.
 • Með því að ýta á núllstillingarhnappinn er hægt að stilla heimilistæki með Home Connect-virkni á verksmiðjustillingar. Þá er notandanafnið þitt ekki lengur notað eða úthlutað á heimilistækið.

Snjöll orkustjórnun

Nú er hægt að stjórna orkunotkun heimilisins og draga úr kostnaðinum sem henni fylgir. Nú er Flex Start-eiginleikinn einnig í boði í völdum uppþvottavélum, þvottavélum og þurrkurum frá Bosch og Siemens sem eru með Home Connect-virkni. Þessi eiginleiki gerir þér kleift að nýta alla kosti snjallrar orkustjórnunar en hann er veittur í samstarfi við orkustjórnunar- og íspennukerfi eða sparnaðargjaldskrá frá þriðja aðila.

Svona virkar þetta.

Þú getur til dæmis stillt inn lokatímann sem þvottavélin hefur til að ljúka við þvottakerfið og virkjað orkustjórnunina. Þá tekur orkustjórnunarkerfi heimilisins yfir stjórn heimilistækisins og lokavinnslutíma þess. Kerfið reiknar út upphafstímann sem hentar best til að nýta orkugjafann á sem hagkvæmastan hátt (t.d. orku frá íspennugjafa eða sparnaðargjaldskrá). Ef engir orkusparnaðarkostir eru í boði skiptir kerfi vélarinnar sjálfkrafa yfir í hefðbundinn orkugjafa til að tryggja að þvotturinn klárist áður en stillti lokatíminn rennur upp.

Nauðsynlegir hlutir:

 • Uppþvottavél, þvottavél eða þurrkari með Home Connect og Flex Start-eiginleika: Upphaflega aðeins í boði í Þýskalandi og Austurríki. Þjónustuver okkar er reiðubúið að veita þér allar frekari upplýsingar um heimilistæki með Home Connect og Flex Start-eiginleika.
 • Íspennukerfi eða sparnaðargjaldskrá
 • Orkustjórnunarkerfi, áriðill og orkumælir frá þriðja aðila: Með því að innleiða EEBus-staðalinn höfum við tryggt að heimilistæki með Home Connect eru samhæf við öll orkustjórnunarkerfi sem hafa innleitt samskiptareglur EEBus. Búið er að staðfesta rekstrarsamhæfi EEBus og heimilistækja frá Bosch og Siemens í samvinnu við fyrirtækið SMA og við notkun á Sunny Home Manager frá SMA. Farðu á vefsvæði SMA og skoðaðu lista yfir lönd og dreifileiðir sem bjóða upp á Sunny Home Manager.
 • Beinir fyrir þráðlaust staðarnet (WLAN) með internetaðgangi: Samskiptin á milli Sunny Home Manager og heimilistækjanna með Home Connect-virkni fara fram í gegnum sama þráðlausa net og tækin þín eru tengd við. Sunny Home Manager kerfið hefur samskipti við áriðilinn í gegnum Bluetooth/staðarnet og það verður að vera tengt við internetið í gegnum staðarnet, þ.e. Ethernet-snúru sem tengd er við beininn.

Hvernig á að para orkustjórnunarkerfi frá SMA við heimilistæki með Home Connect

 • Tengdu heimilistækið við Home Connect-forritið.
 • Tengdu orkustjórnunarkerfið við heimilistækið. Aðeins er hægt að tengja heimilistækið og orkustjórnunarkerfið ef heimilistækið er tengt við Home Connect-reikning og er ekki þegar tengt við aðra EEBus-hluti.
 • Tengdu heimilistækið og orkustjórnunarkerfið með því að undirbúa tækið fyrir tengingu og fjarlægja kló orkustjórnunarkerfisins úr innstungunni og stinga henni aftur í samband. Þetta endurræsir orkustjórnunarkerfið.
 • Eftir endurræsinguna birtist heimilistækið einnig í Sunny Portal.

Lestu notendahandbókina sem fylgdi með Sunny Home Manager til að fá ítarlegri upplýsingar.

Eitt kerfi. Heimur fullur af tækifærum.

Home Connect er forrit fyrir snjallsíma eða spjaldtölvu sem veitir langþráða lausn í stjórnun heimilistækja frá ýmsum framleiðendum og gerir þér kleift að stjórna þeim – heima jafnt sem að heiman. Þú þarft ekki lengur að halda þig við heimilistæki frá einum framleiðanda til að kaupa tæki með fjarstýrðum eiginleikum. Við erum stolt af því að framleiðendurnir Bosch og Siemens sem eru fremstir í sinni röð í Evrópu hafa þegar innleitt Home Connect-staðalinn – hér færðu frekari upplýsingar um tæki með Home Connect-virkni sem eru þegar til á markaðnum.

Hér er líka að finna lista yfir samstarfsaðila okkar og hvaða vörumerki koma til með að innleiða Home Connect í framtíðinni. Listinn yfir okkar virtu samstarfsaðila lengist stöðugt en á honum eru bæði framleiðendur uppskriftaforrita og orkustjórnunarkerfa – hver um sig sérfræðingur á sínu sviði – og allir eru þeir að innleiða Home Connect í sínar lausnir. Kynntu þér: Amazon Alexa, Bosch Smart Home, Busch-Jaeger/ABB, Diehl, Drop, HelloFresh, IFTTT, Kochhaus, Nest®, Nuimo by Senic, Simply Yummy. Athugaðu að sumir samstarfsaðilar eru mögulega ekki tiltækir í þínu landi. Skoðaðu þróunargáttina ef þú vilt vera með í Home Connect-vistkerfinu.

Samstarfsaðilinn Bosch

Nafnið Bosch hefur haldið stöðu sinni sem frumkvöðull á sviði tækninýjunga og framleiðandi gæðavara í gegnum margar kynslóðir. Heimilistæki frá Bosch hafa fylgt þessum háa gæðastaðli í meira en 80 ár: Bosch er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu heimilistækja í Evrópu. Neytendur um allan heim tengja vörumerkið við mikið notagildi, áreiðanleg gæði og rómaða hönnun. Bosch leggur ríka áherslu á að sýna bæði fólki og náttúru virðingu, sem kemur einna best fram í leiðbeinandi meginreglu fyrirtækisins og einkunnarorðunum „tækni fyrir lífið“. Þetta er meðal annars áberandi í framleiðslu fyrirtækisins á sjálfbærum vörum og beitingu sjálfbærra vinnsluaðferða.

Til að koma til móts við hinn nettengda heim sem við búum við í dag leitast Bosch við að þróa einfaldar, snjallar og ávallt hagnýtar lausnir. Á grundvelli þessa markmiðs býður Bosch viðskiptavinum sínum upp á vörur í miklum gæðum sem veita innblástur og heitir þeim jafnframt að meðhöndla gögn á tilhlýðilegan hátt. En allt miðar þetta að því að létta viðskiptavinum lífið.

Samstarfsaðilinn Siemens

Siemens er fremsti framleiðandi heimilistækja í Þýskalandi og fyrirtækið setur viðmið fyrir önnur fyrirtæki þegar kemur að tækni, nýjungum og hönnun. Vöruúrval fyrirtækisins samanstendur af bæði sjálfstæðum og innbyggðum eldunartækjum, þvottavélum, kælitækjum, frystitækjum og uppþvottavélum. Að auki stendur félagið framarlega þegar kemur að kaffivélum og gólfhreinsunarbúnaði. Í yfir 165 ár hefur vöruheitið Siemens staðið fyrir frammistöðu, nýsköpun, gæði, áreiðanleika og alþjóðlega útbreiðslu. Siemens er einnig leiðandi í þróun og framleiðslu orkusparandi heimilistækja.

Í dag er mikilvægur þáttur í heimilishaldi að heimilistæki séu stafræn og nettengd. Siemens Home Appliances tekur þátt í þessari þróun og býður viðskiptavinum sínum upp á þann valkost að fjarstýra tækjunum sínum hvenær sem er – jafnvel fjarri heimilum sínum.